Félagsþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu, auglýsir stöðu Félagsmálastjóra lausa til umsóknar

Félagsmálastjóri hefur umsjón með framkvæmd stefnumörkunar sem heyra undir hans málaflokk. Eftirtaldir málaflokkar heyra undir Félagsmálastjóra; félagsleg ráðgjöf, félagsleg heimaþjónusta, Þjónustu við fatlað fólk, þjónustu við aldraðra, fjárhagsaðstoð, málefni barna og ungmenna, húsnæðismál auk tilfallandi verkefna sem falla undir hans fagsviðs. Eftirlit með gerð samninga, laga og reglugerða um félagsþjónustu. Hann situr í byggðasamlagi Bergrisa um málefni fatlaðs fólks. Hefur umsjón með barnaverndarmálum samkvæmt barnaverndarlögum 80/2002. Einnig sinnir félagsmálastjóri teymisvinnu og starfar með mismunand fagstéttum innan sem utan þjónustusvæðis. Félagsmálastjóri ber ábyrgð á rekstri Félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur- Skaftafellssýslu.

Menntunar og hæfniskröfur:

  • Háskólapróf á sviði félagsráðgjafar og meistarapróf til starfsréttinda í félagsráðgjöf
  • Reynsla af stjórnun úr sambærilegu umhverfi æskileg
  • Reynsla og þekking af starfsemi félagsþjónustu sveitarfélaga
  • Þekking á svæði félagsþjónustunnar er mikill kostur
  • Færni í mannlegum samskiptum auk forystu og skipulagshæfileika
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti

 

Félagsþjónusta Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu er byggðasamlag 5 sveitarfélaga og annast félagsþjónustu fyrir Ásahrepp, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp en þar búa samtals um 5.300 íbúar. Skrifstofa félagsþjónustunnar er staðsett á Hellu. Hjá félagsþjónustunni starfar öflug liðsheild sérfræðinga. Starfsmenn stofnunarinnar eiga í nánu og góðu samstarfi við Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu með heildarhagsmuni þjónustuþega að leiðarljósi. Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Félagsráðgjafafélags Íslands.

Leitað er að einstakling sem hefur brennandi áhuga á að leiða áframhaldandi uppbyggingu og þróun í félagsþjónustu á svæðinu. Starfið krefst ferðalaga og því þarf félagsmálastjóri að hafa bílpróf.

Umsóknarfrestur er til og með 30. október 2020. Nánari upplýsingar um starfið veitir Lilja Einarsdóttir formaður stjórnar Félags- og skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu bs. á netfangið lilja@hvolsvollur.is Umsóknum skal skila á sama netfang og með umsókn skal fylgja ferilskrá.

Starf við félagslega liðveislu

Starf við félagslega liðveislu

Félagsþjónusta Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu auglýsir eftir starfsmanni í hlutastarf frá 26 maí til 15 júlí til að veita barni með fötlun félagslega liðveislu. Um er að ræða persónulegan stuðning og aðstoð til að taka þátt í menningar- og félagslífi og/eða til að  sinna atvinnu. Um er að ræða fjölbreytt, lærdómsríkt og skemmtilegt starf.

Karlar og konur 18 ára eða eldri eru hvött til að sækja um starfið.

Frekari upplýsingar veitir Dögg Þrastardóttir, félagsráðgjafi í síma 487-8125 eða á dogg@felagsmal.is.

Starfsmannamál

Starfsmannamál

1. Svava Davíðsdóttir félagsráðgjafi/félagsmálastjóri í fullu starfi,
2. Annette Mønster ráðgjafi í 50% starfi; sinnir  fjárhagsaðstoð og húsnæðismálum.
3. Gunnsteinn Sigurðsson þroskaþjálfi í 60% starfi; sinnir málaflokki fatlaðs fólks.
4. Aðalheiður Steinadóttir deildarstjóri félagslegrar heimaþjónustu í 60% starfi.
5.Inga Jara Jónsdóttir ráðgjafi í 90% starfi í barnavernd.

 

 

Viltu gerast fósturforeldri?

Viltu gerast fósturforeldri?

Er þörf fyrir fósturforeldra?
Aðstæður og þarfir þeirra barna sem eru í þörf fyrir fósturforeldra eru afar mismunandi. Af því leiðir að á hverjum tíma þurfa að vera mun fleiri til að sinna því hlutverki  en fjöldi barna segir til um. Á ári hverju kunna 70-80 börn að vera í þörf fyrir tímabundið fóstur en mun færri, um 10-15 fyrir varanlegt fóstur.

Að gerast fósturforeldri
Allir sem óska eftir því að gerast fósturforeldrar þurfa að sækja formlega um það til Barnaverndarstofu og skila inn tilskyldum gögnum. Barnaverndarstofa óskar að því búnu eftir umsögn barnaverndarnefndar í heimilisumdæmi umsækjenda um hæfni og getu þeirra til að gerast fósturforeldrar. Sú umsögn er gerð eftir fyrirfram ákveðnu verkferli og byggir á öllum umsóknargögnum, sjálfstæðri könnun og mati barnaverndarnefndar. Starfsmenn Barnaverndarstofu fara síðan á heimili umsækjenda til að staðreyna þær upplýsingar og gögn sem fyrir liggja og taka  viðtal við umsækjendur.
Á grundvelli allra fyrirliggjandi gagna og upplýsinga leggur svo Barnaverndarstofa sjálfstætt mat á það hvort umsækjendur uppfylli skilyrði til að gerast fósturforeldrar.

 

Nánari upplýsingar á bvs.is

 

 

 

 

 

Vinna með börnum og ungmennum

Vinna með börnum og ungmennum

Vantar ÞIG aukavinnu? Félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýlu vantar einstaklinga til að gerast persónulegir ráðgjafar og félagslegir liðveitendur fyrir börn og ungmenni á Hellu og Hvolsvelli. Um er að ræða persónulegan félagslegan stuðning – svo sem við að fara í sund, bíó, spjalla saman, fara í göngutúr eða bíltúr, sækja íþróttaviðburði – allt eftir áhugasviði hvers og eins.

Um er að ræða 14-16 tíma á mánuði (jafnvel meira) og er vinnutími sveigjanlegur. Tilvalið með námi eða sem aukavinna. Nauðsynlegt er að hafa aðgang að bíl. Starfið hentar bæði körlum og konum 18 ára eða eldri. Nánari upplýsingar veitir Dögg Þrastardóttir félagsráðgjafi í síma 487-8125 eða á netfangið dogg@felagsmal.is.

„Sterkari stjúpfjölskyldur“ á Selfosssi

„Sterkari stjúpfjölskyldur“ á Selfosssi

Við viljum vekja athygli ykkar á áhugaverðum fyrirlestri fyrir stjúpfjölskyldur sem verður í Norðursal í Ráðhúsi Árborgar 1. september frá 17:00-19:00.

Stjúpfjölskyldur þ.e. fjölskyldur þar sem annar eða báðir aðilar sem hana stofna eiga barn eða börn úr fyrra sambandi eða samböndum eru algengar hér á landi. Þrátt fyrir margbreytileiki þeirra benda rannsóknir til að þær eigi ýmislegt sameignlegt. Algengt er að hlutverk stjúpforeldra vefjist fyrir fólki en í nýrri könnun á vegum Félags stjúpfjölskyldna kom t.d. í ljós að 45,7% fólks var mjög/sammála fullyrðingunni „Ég er ekki viss um hvert er hlutverk stjúpforeldris í stjúpfjölskyldunni“ en tæp 30% voru mjög/ósammála henni.

Hvernig samskiptum við fyrrverandi maka eða barnsföður eða -móður er háttað skiptir miklu máli fyrir aðlögun og líðan bæði barna og fullorÚtskráðinna í stjúpfjölskyldunni. Algengt er að fólk átti sig ekki á þeim verkefnum sem fylgja stjúpfjölskyldunni en í sömu könnun kom fram að 75,6% fólks var mjög/sammála fullyrðingunni „Það er flóknara að vera í stjúpfjölskyldu en ég átti von á“ enda kom í ljós í eldri könnun hér á landi að 94% svarenda töldu þörf á fræðslu og sértækri ráðgjöf fyrir stjúpfjölskyldur.

Stjúpfjölskyldur, rétt eins og aðrar fjölskyldur, hafa alla burði til að vera góðar og gefandi fjölskyldu. Með því að vita hvað er eðlilegt fyrir stjúpfjölskyldur í aðlögunarferlinu hjálpar það þeim að takast á við algengar uppákomur með uppbyggilegum viðbrögðum.

„Sterkari stjúpfjölskyldur“ ókeypis fyrirlestur og umræður verður 1. September kl. 17 til 19.00 í Norðursalnum í Ráðhúsi Árborgar í boði Félags stjúpfjölskyldna og Félagsþjónustu Árborgar.

Skráning er á netfangið stjuptengsl@stjuptengsl.is Allar frekari upplýsingar er að finna á www.stjuptengsl.is.

Fyrirlesari er Valgerður Halldórsdóttur félagsráðgjafi og formaður Félags stjúpfjölskyldna.