Barnavernd

Velferð barna á svæði Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu skiptir höfuðmáli. Mál eru unnin samkvæmt lögum um barnavernd nr. 80/2002. Markmið laganna er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Hlutverk barnaverndar er að veita börnum og fjölskyldum ráðgjöf, styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu og beita úrræðum sem barni er fyrir bestu, eins og stuðning í skóla, meðferðarviðtöl hjá sálfræðingi, helgardvöl hjá stuðningsfjölskyldu og fleira. Barnavernd leitast ætíð við, í hverju máli, að starfa í samstarfi við börn og foreldra til að bæta hag og líðan allra fjölskyldumeðlima.

Ef grunur leikur á að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður eða andlegri, líkamlegri og/eða þroska barns sé stefnt í hættu skal tilkynna það til barnaverndar. Eins skal tilkynna ef grunur leikur á að líf ófædds barns sé stefnt í hættu.

Almenningur getur tilkynnt undir nafnleynd óski hann þess sem þýðir að starfsmaður barnaverndar heldur nafni viðkomandi leyndu fyrir þeim sem málið snýr að þó hann fái nafn og símanúmer hjá honum. Lögreglan, starfsmenn leik- og grunnskóla, heilbrigðisstarfsmenn og aðrir þeir sem hafa afskipti af börnum ber að tilkynna mál skriflega til barnaverndar. Þessir aðilar geta ekki tilkynnt mál undir nafnleynd.

Hafir þú ábendingar um mál sem gæti varðað barnavernd getur þú haft samband við starfsfólk Félagsþjónustunnar, Suðurlandsvegi 1-3, Hellu í síma 487-8125 eða með því að senda okkur póst á felagsmal(hja)felagsmal.is.
Ef um neyðartilvik er að ræða eða mál sem ekki þolir bið skal hringja í neyðarlínuna, 112.

Vinnsla barnaverndarmála fer eftir ströngum málsmeðferðarreglum og krefst góðrar faglegrar þekkingar og reynslu. Þegar tilkynning berst barnavernd meta barnaverndarstarfsmenn hvort ástæða sé til að hefja könnun máls. Er það almennt gert á vikulegum meðferðarfundum innan sjö daga frá því að tilkynning berst nema ástæða sé til að bregðast við tafarlaust. Foreldrum er ávallt sent bréf um að tilkynning  hafi borist og hvaða ákvörðun hafi verið tekin í framhaldinu. Þegar formleg ákvörðun hefur verið tekin um að hefja könnun telst mál vera barnaverndarmál.

Við vinnslu mála eru fengnar greinargóðar upplýsingar um barnið svo hægt sé að veita fjölskyldu markvissan stuðning. Þá er barnavernd í samstarfi við fjölmarga aðila auk viðkomandi fjölskyldu, allt eftir eðli mála, t.d. við leik- og grunnskóla, heilbrigðisstofnanir og sérfræðinga, Barnaverndarstofu, Barnahús, Stuðla, BUGL, ART teymi, lögmenn, lögreglu o.s.frv. Úrræði barnaverndar getur falist í stuðningsviðtölum, ráðgjöf og fræðslu. Barnavernd getur verið í samstarfi við skóla, útvegað barni persónulegan ráðgjafa svo dæmi séu tekin. 

Útivistarreglur eru samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002. Frá 1. september – 1. maí mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 20:00 og 13 -16 ára börn vera úti til klukkan 22:00. Frá 1. maí – 1. september mega 12 ára börn og yngri vera úti til klukkan 22:00 og 13-16 ára börn vera úti til klukkan 24:00. Börn mega ekki vera á almannafæri utan ofangreinds tíma nema í fylgd með fullorðunum. Bregða má út af reglunum þegar börn 13-16 ára eru á heimleið frá viðurkenndri skóla-, íþrótta,- eða æskulýðssamkomu. Aldur miðast við fæðingarár.

Foreldrar eða forráðamenn barna skulu sjá til þess að börn hlíti ákvæðum þessa kafla um útivist.

Hafa Samband

Hringdu í síma: 487-8125 á skrifstofutíma

Sendu póst á: felagsmal(hja)felagsmal.is

Barnaverndartilkynning: tilkynningablað

Ef málið er brýnt hafðu samband við lögregluna í síma 112