Farsæld
Farsæld barna
Farsæld barna felur í sér að tryggja aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar samkvæmt lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.
Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Samþætt þjónusta er skipulögð og samfelld þjónusta sem hefur það að markmiði að stuðla að farsæld barns og er veitt af þeim þjónustuveitendum sem eru best til þess fallnir að mæta þörfum barns hverju sinni. Til þjónustuveitenda teljast t.d. leikskólar, grunnskólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar, framhaldsskólar, heilsugæsla, sérhæfð heilbrigðisþjónusta, lögregla, félagsþjónusta og barnavernd.
Nánari upplýsingar um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna skv. lögum nr. 86/2021
Samþætting þjónustu í þágu farsældar barns.
Farsældarþjónusta tekur til allra kerfa sem veita börnum þjónustu, hvort sem hún er veitt á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga. Þjónustan er veitt á þremur þjónustustigum:
- 1.stig – er grunnþjónusta fyrir alla – snemmtækur stuðningur
- 2.stig – er veittur einstaklingsbundinn og markvissur stuðningur í samræmi við faglegt mat og/eða frumgreiningu á þörfum barns á grundvelli stuðningsáætlunar.
- 3.stig – er veittur einstaklingsbundinn og sérhæfðari stuðningur í samræmi við sérhæft og ítarlegt mat og/eða greiningu á þörfum barns á grundvelli stuðningsáætlunar.
Beiðni um miðlun upplýsinga er eyðublað sem foreldri og/eða barn fyllir út sem heimilar þjónustuveitanda eða þeim sem veitir almenna þjónustu í þágu farsældar barns að taka saman upplýsingar um aðstæður barns og miðla þeim til tengiliðar. Eyðublaðið heimilar eingöngu þessa tilteknu miðlun til þessa tiltekna tengiliðar. Tengiliður hefur ekki heimild til að hafa samband við aðra en foreldra og/eða barn þegar hann hefur móttekið upplýsingarnar. Tengiliður hefur einungis heimild til þess að hafa samband við aðra en foreldra og/eða barn þegar foreldrar og/eða barn hafa skrifað undir beiðni um samþættingu þjónustu.
Beiðni um samþættingu þjónustu er eyðublað sem foreldrar og/eða barn fyllir út þar sem óskað er eftir að þjónusta við barn verði samþætt. Beiðnin heimilar tengiliðum, málstjórum, þjónustuveitendum og þeim sem veita þjónustu í þágu farsældar barns að vinna upplýsingar um barn til að tryggja því skipulagða og samfellda þjónustu.
Með vinnslu persónuupplýsinga um barn er m.a átt við söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og samkeyrslu upplýsinga um aðstæður barns, þ.m.t. viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi. Gæta ber að meðalhófi við vinnslu persónuupplýsinga á grundvelli laganna og skal ekki vinna með persónuupplýsingar umfram það sem nauðsynlegt má telja í hverju einstöku tilviki í þágu tilgangsins.
Öll vinnsla og miðlun upplýsinga er aðeins heimil eftir að foreldrar og eftir atvikum barn hafa sett fram beiðni þess efnis á þar til gerðum eyðublöðum.
Eyðublaðið beiðni um samþættingu þjónustu geta foreldrar og/eða barn nálgast hjá tengilið í sínu nærumhverfi.
Foreldrar og börn á þjónustusvæði félags- og skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu hafa aðgang að tengilið í leik- og grunnskólum í sínu sveitarfélagi. Tengiliður hefur hagsmuni barns að leiðarljósi í samstarfi og samráði við foreldra og barn.
Foreldrar og börn geta alltaf leitað sjálf til tengiliðar í nærumhverfi barnsins og óskað eftir samþættri þjónustu.
Hlutverk tengiliðar er að:
- Skipuleggja og fylgja eftir samþættingu fyrsta stigs þjónustu í þágu farsældar barns.
- Tengiliður vinnur mál barns á 1. stigi þjónustu
- Veitir upplýsingar um þjónustu í þágu farsældar barns
- Aðstoða við að tryggja aðgang að frummati á þörfum barns
- Koma upplýsingum til sveitarfélags um þörf fyrir tilnefningu málstjóra þjónustu í þágu farsældar barns.
- Tekur þátt í starfi stuðningsteymis eftir því sem við á.
Upplýsingar um tengiliði í leik – og grunnskólum á þjónustusvæði Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu er að finna á heimasíðum leik- og grunnskólanna.
Tengiliður heldur utan um samþættingu þjónustu á fyrsta stigi. Þjónusta á fyrsta stigi er tvískipt.
Annars vegar er það grunnþjónusta sem er aðgengileg öllum – t.d. almenn þjónusta leik-, grunn- og framhaldsskóla, þar á meðal almenn menntun, forvarnir og starfshættir gegn einelti og ofbeldi o.s.frv. Almenn heilsugæsla, meðgöngueftirlit, fæðingarnámskeið og almenn félagsþjónusta.
Hins vegar er það einstaklingsbundinn og snemmtækur stuðningur. Úrræði sem svara þörf fyrir þjónustu sem er umfram grunnþjónustu. Þetta er t.a.m. aukin aðstoð eða liðsinni, t.d. þegar barn hefur afmarkaða þörf fyrir skólaþjónustu vegna sérþarfa, námsörðugleika, hegðuanrvanda eða afleiðinga eineltis o.s.frv.
Telji tengiliður að barn þurfi á sérhæfðari og markvissari stuðning óskar hann eftir því að mál verði fært á 2. eða 3. stigs þjónustu..
Annars stig þjónusta eru úrræði úrræði þar sem þörf er á sérhæfðari eða fjölbreyttari þjónustu en veitt er á fyrsta stigi. Hér er stuðningur við barn orðinn það umfangsmikill að líklegt að þörfum barnsins sé ekki mætt nema þjónusta sé samþætt. Dæmi um slíka þjónustu er t.d. ýmis stuðningsþjónusta á vegum félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, sérdeildir eða starfsbrautir í skólum..
Þriðja stigs þjónusta eru úrræði þar sem veittur er sérhæfður stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Barn sem nýtur þjónustu á þessu stigi hefur að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Barn er þá í aðstæðum þar sem skortur á viðeigandi stuðningu og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu barns og þroska. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi eru ýmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndarlaga, fjölþættur stuðningur við fötluð börn og langvarandi sjúkrahúsdvöl barna.
Barn sem hefur þörf fyrir fjölþætta þjónustu á öðru og/eða þriðja stigi fær úthlutaðan málstjóra frá félagsþjónustu eða barnaverndarþjónustu.
Hlutverk málstjóra er að:
- Stýra stuðningsteymi á 2. og 3. stigi þjónustu í þágu farsældar barna.
- Veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu.
- Aðstoðar við að tryggja aðgang að mati og/eða greiningu á þörfum barns.
- Ber ábyrgð á gerð stuðningsáætlunar.
- Fylgir því eftir að þjónusta sé veitt í samræmi við stuðningsáætlun.
- Veitir þeim sem sitja í stuðningsteymi ráðgjöf og upplýsingar um samþættingu þjónustu barns.