fatladir

Málefni fatlaðs fólks

Félagsþjónusta Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu ber ábyrgð á og sér um framkvæmd þjónustu við fatlað fólk og sinnir eftirliti með þjónustunni á þessu svæði. Þjónusta við fatlað fólk er unnin á grundvelli laga um málefni fatlaðs fólks og miðar að því að tryggja fötluðu fólki jafnrétti, gera því kleift að lifa eðlilegu lífi og skapa skilyrði fyrir þau til að taka virkan þátt í lífinu. Veitt er margvísleg þjónusta. Má þar nefna stuðning og ráðgjöf við fatlað fólk og foreldra fatlaðra barna, félagsleg liðveisla, stuðningsfjölskylda fyrir fötluð börn, sértæk ráðgjöf, skammtímavistun, hæfing, vernduð vinna, búsetuúrræði og ferðaþjónusta.

Sértæk ráðgjöf til fjölskyldna fatlaðra barna

Meginverkefni ráðgjafarþroskaþjálfa er að efla og styðja foreldra vegna barna þeirra með fötlun. Þjónustan nær til fjölskyldna barna yngri en 18 ára og veitir hann ýmsa þjónustu, allt eftir óskum foreldranna.

Ráðgjöf þroskaþjálfa til foreldra á heimili þeirra miðast við þarfir barna með fötlun fyrir umönnun og þjálfun og að gera foreldrum kleift að nýta sértækar leiðir við uppeldi og umönnun barna sinna. Lögð er áhersla á að ráð og leiðbeiningar falli að aðstæðum fjölskyldunnar og hafi velferð hennar í huga. Ráðgjöfin beinist helst að daglegum athöfnum fjölskyldunnar m.t.t þarfa barnanna, samræmingu vinnubragða milli skóla og heimilis, leiðbeininga vegna hegðunar barnanna og samskipti þeirra, fræðsla, forgangsröðun á þjálfun/kennslu barnanna, fræðsla um fatlanir fyrir foreldra og aðra nákomna börnunum, greining á þörf fyrir þjónustu og frekari ráðgjöf sérfræðinga. Hugar að líðan foreldra og systkina og aðstoðar fjölskylduna við að leita ráða vegna þess. 

Sértæk ráðgjöf til fatlaðs fólks

Meginverkefni ráðgjafarþroskaþjálfa er að efla og styðja einstaklinga með fötlun. Þjónustan nær til einstaklinga l8 ára og eldri og fjölskyldna þeirra. 

Ráðgjöf þroskaþjálfa til einstaklinga með fötlun miðast við þarfir þeirra. Lögð er áhersla á að ráð og leiðbeiningar falli að aðstæðum einstaklingsins og fjölskyldu hans. Ráðgjöfin beinist helst að daglegum athöfnum einstaklingsins. Greining á þörfum fyrir þjónustu og frekari ráðgjöf sérfræðinga. Hugar að líðan einstaklingsins og fjölskyldu hans. 

Réttindagæslumaður fatlaðs fólks

Hlutverk réttindagæslumanns er að veita fötluðu fólki, sem á erfitt með að gæta réttinda sinna sjálft, aðstoð og ráðgjöf. Fatlað fólk getur leitað til réttindagæslumanns með allt sem varðar réttindi þess, fjármuni og önnur persónuleg mál.Telji hann sjálfur eða einhver sem stendur honum nærri að réttindi hans séu ekki virt sem skyldi skal hafa samband við réttindagæslumann.

Hægt er að hafa samband við réttindagæslumann fatlaðs fólks á postur@rettindagaesla.is 

Stuðningur vegna skertrar starfsgetu

Vinnumálastofnun býður upp á þjónustu við öryrkja og aðra atvinnuleitendur með skerta starfsgetu. Þjónustan er tvískipt og fer eftir þjónustuþörf hvers og eins. Annars vegar er um að ræða sérhæfða ráðgjöf og stuðning við atvinnuleitina og hins vegar þjónustu AMS, ,,Atvinnu með stuðningi“ sem felst í aðstoð við atvinnuleitina og stuðningi og eftirfylgni á vinnustað.

Hver sá sem óskar eftir stuðningi, ráðgjöf eða upplýsingum er bent á að hafa samband við ráðgjafa á skrifstofu félagsþjónustu Rangárvalla- og Vestur Skaftafellssýslu.

Umsóknir sendist á:
Félagsþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu
Suðurlandsvegi 1-3
850 Hellu

Eða rafrænt á petrina@felagsmal.is

Sveitarfélögin Hveragerðisbær, Sveitarfélagið Ölfus, Grímsnes- og Grafningshreppur, Sveitarfélagið Árborg, Flóahreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur reka byggðasamlagið Bergrisann, um málefni fatlaðs fólks. 

Aðildarsveitarfélögin fela byggðasamlaginu skipulag og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögunum, í samræmi við lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018.

Hlutverk byggðasamlagsins er að útfæra þjónustuna. Fjárhagslegri og faglegri umgjörð hennar er nánar lýst í samþykktum Bergrisans bs.