Framkvæmdaáætlun Félagsmálanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu í barnavernd 2014-2018

  • Post category:Myndasafn
  • Reading time:8 mins read

(Sameiginleg nefnd fyrir Ásahrepp, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshrepp og Skaftárhrepp)

Forsendur

Félagsmálanefnd Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu fer með barnaverndarmál á starfssvæði nefndarinnar skv. samþykktum þar um.

Framkvæmdaáætlun þessi er unnin fyrir hönd ofangreindra aðildarsveitarfélaga skv. 9. gr. laga nr. 80/2002 um vernd barna og ungmenna.

“Sveitarstjórnir skulu marka sér stefnu og gera framkvæmdaáætlun fyrir hvert kjörtímabil á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins.  Framkvæmdaáætlun sveitarfélags í barnaverndarmálum skal send félagsmálaráðuneyti og Barnaverndarstofu”[1]

 

Leiðarljós félagsmálanefndar Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu

  • Að börn og ungmenni á starfssvæði nefndarinnar búi við góðar uppeldisaðstæður þar sem þau njóti virðingar, umhyggju, stuðnings og eftirlits fjölskyldna, nágranna og fagaðila. Þau búi við réttlátan aga og þeim séu búin uppeldisskilyrði og skapaður uppeldisrammi sem gefi þeim færi á að nýta hæfileika sína og þroska þá eins og mögulegt er.

 

  • Að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndar og skal félagsmálanefnd taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áherslur í barnaverndarstarfi byggi á jákvæðri nálgun og miði að því að leiðbeina og styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu m.a. með samstarfi og samráði eins og frekast er kostur. Leitast skal við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra sem nefndin hefur afskipti af og ávallt sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu.

 

Megináherslur í störfum félagsmálanefndar í barnavernd

  • Barnaverndarlög nr. 80/2002 og Barnasáttmáli sameinuðu þjóðanna eru grundvöllurinn í störfum félagsmálanendar í barnavernd og starfsmanna hennar.
  • Félagsmálanefnd hafi ávallt til reiðu sérhæft starfsfólk til að vinna í barnaverndarmálum.
  • Hagsmunir barnsins séu ávallt í forgangi og mikilvægt að hlustað sé á sjónarmið þess.
  • Til staðar séu sem fjölbreyttust úrræði til stuðnings börnum og fjölskyldum þeirra.
  • Gripið sé með skjótum hætti inn í mál þeirra barna sem eiga í vanda skv. skilgreiningu barnaverndarlaga.
  • Félagsmálanefnd og starfsfólk hennar eigi gott samstarf við fjölskyldur í erfiðleikum og að samskiptin einkennist af skilningi og virðingu.
  • Gott samstarf sé á hverjum tíma við heilsugæslu, skóla og aðrar stofnanir sem koma að málefnum barna.

 

Markmið félagsmálanefndar í barnavernd fyrir Rangárvalla og Vestur-Skaftafellssýslu

  • að koma í veg fyrir vanrækslu á börnum og stöðva hana ef hennar verður vart
  • að styðja börn og foreldra þeirra til bættra samskipta og að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu
  • að gæta sérstaklega að þjónustu við fötluð börn og rétti þeirra til sambærilegra tækifæra og önnur börn hafa
  • að styðja við fjölskyldur sem glíma við margþættan vanda
  • að auka þekkingu og skilning almennings á mikilvægi þess að öll börn búi við viðunandi aðstæður og auka þannig samábyrgð gagnvart börnum í samfélaginu
  • að byggja upp traust milli nefndarinnar og hins almenna borgara þannig að hann hiki ekki við að sinna lagalegri skyldu sinni og  tilkynni til nefndarinnar ef aðstæðum barna er ábótavant
  • að skapa barnavernd  þá ímynd að hún sé styðjandi úrræði en ekki refsiúrræði

 

Leiðir að markmiðum

  • Félagsmálanefnd heldur fundi  mánaðarlega.
  • Félagsmálanefnd hefur á hverjum tíma hæft fagfólk á sviði barnaverndar til að sinna þeim málum sem upp koma.
  • Félagsmálanefnd leggur sérstaka áherslu á forvarnarstarf og hefur forgöngu um að öflugir forvarnarhópar starfi á starfssvæði hennar. Þá verði haldið námskeið fyrir foreldra barna á unglingastigi til að vekja þá til umhugsunar m.a. um notkun snjalltækja.
  • Félagsmálanefnd tryggi að öll börn á svæðinu fái samsvarandi forvarnarfræðslu m.a. kynfræðslu og um notkun snjalltækja.
  • Aukið samstarf við leik- og grunnskóla þannig að barnavernd verði kölluð fyrr inn í mál þar sem miklir erfiðleikar steðja að börnum og fjölskyldum þeirra.
  • Starfsmenn félagsþjónustu eigi fastan viðverutíma í öllum skólum á svæði nefndarinnar og sitji nemendaverndarráðsfundi.
  • Aukin fræðsla til starfsfólks leik- og grunnskóla svo og foreldra varðandi tilkynningaskyldu og stuðningsúrræði barnaverndar.
  • Aukið samstarf við lögreglu er snýr að heimilisofbeldi þar sem börn eru á heimilum.
  • Fræðsla til starfsfólks heilsugæslu um tilkynningaskyldu og stuðningsúrræði barnaverndar.
  • Samþykktar verði reglur um þjónustu við fjölskyldur þar sem fjölskyldur sem eiga í margþættum erfiðleikum geta óskað eftir aukinni aðstoð, á grundvelli 11. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, án þess þó að málið verði tekið upp sem barnaverndarmál.
  • Að notaðir séu túlkar í barnaverndarmálum þar sem foreldrar eru af erlendum uppruna og tungumálaörðugleikar eru til staðar.

 

Uppbygging barnaverndarstarfs

Félagsmálanefnd Rangárvalla og V-Skaftafellssýslu hefur, í samræmi við 4. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefndum nr. 56/2004, veitt starfsmönnum Félagsþjónustunnar umboð til þess að annast og vinna þau mál sem nefndinni kunna að berast í samræmi við barnaverndarlög nr. 80/2002 með síðari breytingum og samkvæmt reglum um starf starfsmanna félagsmálanefndar samþykktar 22. apríl 2013.

 

Þarfagreining og verkefnin framundan

Í apríl 2015 verður lögð könnun fyrir öll börn í 7.til 10. bekk í grunnskólum í Rangárvalla – og Vestur Skaftafellssýslu til að meta ákveðna áhættuþætti, svo sem neyslu áfengis- og vímuefna og netnotkun.  Í framhaldinu verði metið hvort og þá hvaða aðgerða sé þörf að grípa til.

Með því að samþykkja reglur um þjónustu við fjölskyldur með margþættan vanda má síðan koma til móts við mörg af þeim vandamálum sem koma inn á borð félagsþjónustu, án þess þó að mál teljist barnaverndarmál.  Er litið á þessa aðgerð sem forvörn í þeim málum þar sem sýnt þykir að stuðnings sé þörf svo koma megi í veg fyrir að mál þróist á verri veg.

 

Starfsmannaþörf

Fjölgun mála á undanförnum árum varð til þess að aukið var við stöðugildi í barnavernd um 50% í apríl 2014.  Mikilvægt er að meta starfsmannaþörf út frá þeirri þróun sem verður í málafjölda, en í desember 2014 voru 31 opið mál í vinnslu starfsmanna samanborið við 15 mál haustið 2012.  Þá verður einnig að hafa í huga hversu víðfemt starfssvæði félagsþjónustunnar er og hversu mikill tími getur farið í milliferðir í einstökum málum.

Mikilvægt er að starfsfólk félagsþjónustu sæki sér sí- og endurmenntun til að viðhalda og efla færni sína í barnaverndarstarfi.  Þeir þurfa einnig að hafa svigrúm til að miðla þekkingu sinni og reynslu til almennings og samstarfsaðila.

 

Kostnaður

Áætlaður rekstrarkostnaður barnaverndar hvers árs er tilgreindur í fjárhagsáætlun Félagsþjónustunnar bs. auk þess sem hvert aðildarsveitarfélaganna gerir ráð fyrir rekstrarkostnaði vegna úrræða í barnarverndarmálum í því sveitarfélagi.

 

Mat á árangri

Í lok kjörtímabilsins mun nefndin sjálf fara yfir einstaka þætti í starfi sínu og leggja mat á hvar henni hafi tekist ætlun sín og hvaða þætti hún leggi til að verði styrktir frekar.

 

Framkvæmdaáætlun þessi var samþykkt í félagsmálanefnd þann 23. 03. 2015 og staðfest í aðildarsveitarfélögunum:

 

Ásahreppi 14.apríl 2015

Rangárþingi ytra 27.maí 2015

Rangárþingi eystra 15.apríl 2015

Mýrdalshreppi 26.mars 2015

Skaftárhreppi 11. júní 2015

[1] Barnaverndarlög nr. 80/2002